Airwaves gestalisti dagsins – Raftónar.is

7.10.2011 - Georg Atli

Það er föstudagur og við höldum áfram með gestalistana okkar, nú er komið að Jónasi Þór sem að er aðalmaðurinn hjá Raftónar.is (síða sem ætti að vera í bookmarks hjá ykkur öllum og sérstaklega þeim sem fíla raftónlist). Jónas gengur líka undir nafninu Ruxpin og er einn af færustu raftónlistarmönnunum okkar og það gerir hann að einmitt rétta manninum til að leiðbeina okkur öllum í gegnum elektrófumskógin sem Airwaves getur verið. Topp 5 atriði á Airwaves sem raftónlistaáhugamaðurinn ætti að sjá

Ghostigital

Óhljóðameistararnir í Ghostdigital eru yfirleitt með mjög krefjandi og mjög öðruvísi tónleika. Hin óhlutstæða og handahófskennda predikun Einars Arnars og hin tilraunakennda raftaktabrot Curver eiga jafnvel saman og Vodka í Martini. Verið undirbúin fyrir bæði veislu og pynting fyrir eyrun, sem og augun.

Ghostigital – Don’t Push Me ft. Sensational + Nick Zinner by ghostigital

Consortium Musicum

Þetta er samstarfsverkefni Sean Lennons og Greg Saunier, en lítið hefur heyrst um afrakstur þess. Það litla sem við höfum heyrt lofar góðu, eins konar lifandi, sem og rafrænn, bræðingur. Greg Saunier (Deerhoof) er líka ein færasti trommuleikari okkar tíma og er það að upplifa hann á tónleikum þess virði eitt og sér.

Hauschka

Þýski píanóleikarinn Volker Bertelmann hefur heillað marga tónleikagesti með sínu „Prepared Piano“ hugmyndafræði í anda John Cage. Deila má um hvort þetta flokkist sem rafræn tónlist, en hinir fögru tónar hans munu án efa virkja óþekktar tilfinningastöðvar hjá hinu allra hörðustu rafhausum.

GusGus

Það er lítið hægt að segja um þetta hljómsveit sem ekki hefur verið sagt áður. Þeir eru áskrifendur af Airwaves hátíðinni og það er ástæða fyrir því. Tónleikar þeirra eru upplifun.Oculus mun að öllum líkindum rétta þeim hjálparhönd og gerir það góða tónleika enn betri.

Rich Aucoin

Sunnudagskvöldin á Airwaves eru ávallt vel skipuð og hafa skipuleggjendur ávallt einblínt á að enda hátíðina með stæl og Í ár er engin breyting á því. Hinn kanadíski Aucoin er þekktur fyrir skemmtilega sviðsframkomu ásamt grípandi danslögum. Mæli ég með því að fólk kynnir sér þennan listamann og láti hann ekki framhjá sér fara.

Tags: , , , , , , ,
Flokkað undir Airwaves, Georg Atli, Gestalisti | Comments Off

Enn af diskakaupum

1.4.2008 - Kristín Gróa


Það sem ég gleymdi að ég hefði keypt um helgina var auðvitað The Runners Four með Deerhoof, The Madcap Laughs með Syd Barrett og disk sem inniheldur fyrstu tvær plötur The Flying Burrito Brothers (og þær einu sem Gram Parsons var með í), The Gilded Palace Of Sin og Burrito Deluxe. Ansi góð kaup það. Úff ég er svo gleymin að ég skil ekki hvernig ég kemst á milli húsa áfallalaust. Af því ég er andlaus í dag þá eru hérna lög af þessum prýðisplötum sem ég keypti.

Deerhoof – Midnight Motorcycle Mystery af The Runners Four
Syd Barrett – Dark Globe af The Madcap Laughs
The Flying Burrito Brothers – Dark End Of The Street af The Gilded Palace of Sin
The Flying Burrito Brothers – Wild Horses af Burrito Deluxe

Tags: , , ,
Flokkað undir Kristín Gróa, Óflokkað | Comments Off

Lokauppgjör 2007 – Vignir

11.1.2008 - Fyrrverandi topp fimmarar og gestalistamenn

Já, þá er bara að svara nokkrum spurningum…

1. Hverjir voru bestu tónleikar sem þú sást á árinu?
Þetta var aldeilis gott tónleikaár og margt skemmtilegt sem maður náði að sjá. Á Airwaves stóðu uppi tónleikar Deerhoof, !!! og Of Montreal. En bestu tónleikar sem ég sá voru án alls vafa Arcade Fire á Glastonbury hátíðinni. Frábær tónlist vel spiluð, gríðargóð sviðsframkoma og ótrúlega góð stemning á tónleikum. Að lifa er að syngja með einhverjum þúsundum viðlagið í ‘Wake Up’.

2. Hvaða gamalt dót uppgötvaðir þú á árinu?
Ég fór aðeins að hlusta meira á Bob Dylan á árinu sem hafði fengið að sitja á hakanum í einhvern tíma. Einnig fór ég að dýfa tánni aðeins í gamalt soul. Al Green fékk stundum að fara á fóninn og ‘We’re Having a Party‘ með Sam Cooke er gamla lag ársins! Svo setti ég Magnýl frekar oft á fóninn sem er alltaf sterkur leikur.

3. Hver voru mestu vonbrigði ársins?
Plata Bloc Party, A Weekend in the City, voru mikil vonbrigði og kemst ekki í hálfkvisti við frumburðinn.
Modest Mouse á Glastonbury voru líka nokkur vonbrigði en því má nú bara kenna um greinilega þreytu í hógværu músunum.

4. Hverju ætlaðirðu alltaf að tékka á á árinu en trassaðir?
Panda Bear, nýju White Stripes plötunni, nýju Spoon plötunni og nýju Animal Collective plötunni, sem ég týndi.

5. Hver er bjartasta vonin?
Battles eiga ótrúlega góða debut plötu og eru því sterkir frambjóðendur í þetta. Hins vegar ætla ég að segja að Zach Condon og félagar í Beirut séu bjartasta vonin, því eftir tvær frábærar plötur er greinilegt að hér er mikilvægur unglingslistamaður á ferð. Svo má heldur ekki gleyma Flight of the Conchords sem komu virkilega sterkir inn!

6. Bónus: Hvaða mynd var með besta soundtrackið á árinu?
I’m not there kom út í fyrra en ég sá hana á þessu ári. Ég ætla samt að setja hana sem besta soundtrackið. Frábær Bob Dylan lög í flutningi mannsins sjálfs og leikaranna. Mér fannst mjög gaman að Christian Bale og svarta stráknum en Jim James úr My Morning Jacket stal senunni!

Tags: , , , , , , , , , , , , , , , , , ,
Flokkað undir Listar | Comments Off

Ársuppgjör 2007 – Kristín Gróa

11.1.2008 - Kristín Gróa

Hverjir voru bestu tónleikar sem þú sást á árinu?

Bob Dylan var magnaður í Gautaborg og ég get eiginlega ekki annað en minnst á Glastonbury því það var æðislegt í alla staði þó hápunktarnir hafi tvímælalaust verið Arcade Fire og Beirut. Ég get varla gert upp á milli en held að Arcade hafi vinninginn… ég meina sjáið bara þessa klippu. Geðveikt!

Arcade Fire live á Glastonbury 2007

Hvaða gamalt dót uppgötvaðir þú á árinu?


Úff það er orðið dálítið erfitt að uppgötva eitthvað gamalt en ég afrekaði það þó að kaupa plötuna Forever Changes með Arthur Lee og félögum hans í Love sem ég hafði aldrei hlustað á áður. Lagið Alone Again Or er yfirleitt ofarlega á bestu lög ever listum en það hafði ég bara aldrei heyrt fyrr en ég keypti plötuna. Kreisí. Allavega þá er þetta auðvitað alveg killer plata og hún hefur ósjaldan fengið að hljóma á árinu.

Love – Alone Again Or

Hver voru mestu vonbrigði ársins?


Our Love To Admire með Interpol. Ég var mjög spennt fyrir þessari plötu en svo fannst mér hún eitthvað svo óspennandi. Ég hef hingað til verið mjög mikill Interpol aðdáandi en þessi plata kveikti bara ekkert í mér sem er synd og skömm. Ég er alls ekkert að segja að þetta sé léleg plata en ég varð samt fyrir gríðarlegum vonbrigðum með hana.

Interpol – The Heinrich Maneuver

Hverju ætlaðirðu alltaf að tékka á á árinu en trassaðir?


In Rainbows með Radiohead. Ég verandi svo skelfilega gamaldags og uppfull af þvermóðsku halaði plötunni aldrei niður þegar hún var gefin út á þennan umdeilda hátt í haust. Mér finnst ég hlusta eitthvað svo vitlaust á plötur þegar ég er bara með þær í tölvunni, fer að spóla yfir lög og heildarmyndin fer alveg framhjá mér. Tilhugsunin um að tónlist verði bara á stafrænu formi fer alveg með mig því mér þykir svo gaman að kaupa einhvern físískan hlut sem ég get svo “átt” og hlustað á. Ég keypti plötuna annars loksins um síðustu helgi og hún lofar góðu svo jeijj.

Radiohead – House Of Cards

Hver var bjartasta vonin?


Það komu út rosalega margar góðar debut plötur á árinu svo þetta er ekki auðvelt val. Ég held ég verði þó að segja The Besnard Lakes sem áttu eina af bestu plötum ársins. Það verður virkilega spennandi að heyra eitthvað meira frá þeim. Ég er líka alveg heilluð af þessu plötucoveri, mér finnst það svakaflott.

The Besnard Lakes – Disaster

Bónusspurning: Hvaða plata kom þér mest á óvart á árinu?


Friend Opportunity með Deerhoof. Hafði aldrei fílað þau neitt sérstaklega, fannst þau eitthvað of fríkíkrútt eitthvað og var búin að ákveða að þau væru að rembast við að vera skrítin. Einhverra hluta vegna keypti ég þó þessa plötu og ég er alveg ótrúlega fegin. Ekki nóg með að þetta sé alveg mögnuð plata heldur opnaði þetta líka eyru mín fyrir eldra dótinu þeirra sem er vissulega skrítið… en það er meira spunnið í það en ég hélt. Svona getur manni skjátlast.

Deerhoof – Matchbook Seeks Maniac

Tags: , , , , , , , ,
Flokkað undir Kristín Gróa, Listar | 1 athugasemd »

airwaves – zvenni

19.10.2007 - Kristín Gróa

Verð að viðurkenna að ég þekki ekki svo mikið af böndunum sem spila á hátíðinni, en hér er listi yfir þau sem ég kannast við eða vekja áhuga minn…

Skátar
Hef lengi verið á leiðinni að sjá þetta band á tónleikum, sá þá síðast fyrir 2 eða 3 árum. Vona að ég nái að tjekka á þeim núna.

of Montreal
Hef haft blendnar tilfinningar gagnvart þessu bandi, fíla venjulega ekki svona tónlist en Topp5félagsskapurinn hefur átt sinn þátt í að grafa undan elektróskotnum artípoppfordómum mínum.

My Summer as a Salvation Soldier
Sá kappann og bandið hans í gær, fín þunglyndis-rólyndis músík, enduðu þó á háværari nótunum sem var skemmtilegur bónus.

Deerhoof
Þetta band fellur í sama flokk og of Montreal í mínum eyrum en hlakka til við að takast á við þröngsýni mína.

The Duke Spirit
Sá þau reyndar líka í gær og voru ansi góð. Flottar, einfaldar og beittar bassalínur með kraftmiklum söngi voru það sem heillaði mig, gítararnir fínir einnig, blönduðust soldið með trommunum í bakgrunnssurgi. Það gæti hafað truflað upplifun mína af bandinu að ég stóð beint fyrir framan söng- og bassaboxið og heyrði lítið í hinum hljóðfærunum en hei… heimurinn er eins og þú skynjar hann.

Tags: , , , , , ,
Flokkað undir Listar | Comments Off

Topp 5 Airwaves – Vignir

19.10.2007 - Kristín Gróa

5. Hjaltalín
Er búinn að ætla að sjá þetta band svo lengi og mér skal takast það þessa helgi!

4. The Teenagers
Þessir dúddar voru á listanum mínum en ég sá þá í gær og var ekki voðalega hrifinn af þeim. Frekar slappt, satt best að segja :(

3. Late of The Pier
Þeir hendast inn á þennan lista fyrir frábæra tónleika í gær þótt þeir hefðu alveg mátt vera lengri.

2. !!!
Maður er búinn að vera að hlusta á þessa pjakka í nokkuð langan tíma og heyrir endalaust um styrk þeirra á tónleikum. Svo heyrir maður sögur þess efnis að söngvarinn sé hættur og að þeir séu eitthvað að missa dampinn vegna þessa. Ég vona nú samt að það sé bara vitleysa.

1. Deerhoof
Geðsjúku snillingarnir í Deerhoof hafa gert margar sterkar plötur með fullt af brjálæði í og ég hlakka mikið til að sjá þau setja þetta upp á sviði.

Tags: , , , , , ,
Flokkað undir Listar | 1 athugasemd »

Topp 5 Airwaves ’07 – Kristín Gróa

19.10.2007 - Kristín Gróa

5. !!! – Heart Of Hearts

Það er gaman að segja frá því að ég hafði ekki hugmynd um að söngvarinn væri löngu hættur að túra með hljómsveitinni fyrr en ég las frétt á mbl í vikunni um að hann væri endanlega farinn og hættur. Einhverra hluta vegn minnkaði löngunin í að sjá hljómsveitina allsvakalega við þessar fréttir enda hef ég heyrt að maðurinn sé snargeðveikur á sviði. Ég er ekki alveg búin að gera þetta upp við mig ennþá en lagið er allavega ótrúlega gott.

4. Ólöf Arnalds – Við og við

Ég sleppti því reyndar að sjá Ólöfu í gærkvöldi því ég er nýbúin að sjá klukkutíma langt sett hjá henni á Reyfi og vildi heldur nýta tímann í að sjá eitthvað nýtt. Ég var reyndar mjög hrifin af þeim tónleikum og þetta lag greip mig strax þó ég hefði þá aldrei heyrt það áður.

3. Sprengjuhöllin – Verum í sambandi

Ég er svo úr sambandi við íslenskan veruleika að ég var nú bara að heyra þetta lag í fyrsta skipti fyrir tveimur vikum. Ég heyrði svo auðvitað eftir á að þetta væri víst bara vinsælasta lag ársins eða eitthvað álíka. Svona er að vera viðutan plebbi sem hlustar ekki á útvarp. Get with the times missy! Já en ég fatta allavega vinsældir lagsins því það er mjög fallegt og textinn angurvær og á svona líka skýrri íslensku.

2. Deerhoof – You Can See

Það er nú dálítið erfitt að velja eitt Deerhoof lag til að setja á lista en þar sem þetta er lagið sem breytti mér úr Deerhoof hatara í Deerhoof elskara þá fær það heiðurinn. Ég verð nefnilega að viðurkenna að fyrir margt löngu halaði ég niður nokkrum Deerhoof lögum (þetta var stuttu eftir að Apple O’ kom út) og fyrsta lagið sem ég hlustaði á var Panda Panda Panda sem fyrir óþjálfuð eyru hljómar frekar… tjah… spes. Ég var því miður greinilega frekar þröngsýn á þessum tíma því kallaði þetta bull og vitleysu og sór að eyða tíma mínum ekki í að hlusta á þessa þvælu. Ég var svo einhverntíma að býsnast yfir þessu við bróður minn þegar hann fiktaði eitthvað í iPodnum sínum, tróð heyrnartólunum í eyrun á mér og sagði “hlustaðu á þetta, þá fílarðu Deerhoof”. Lagið var You Can See og hann hafði að sjálfsögðu rétt fyrir sér… eftir þetta hef ég fílað Deerhof.

1. of Montreal – A Sentence Of Sorts In Kongsvinger

Það ískraði í mér af kæti þegar ég heyrði að of Montreal yrðu á Airwaves þetta árið. Platan þeirra Hissing Fauna, Are You The Destroyer? er ein af plötum ársins og örugglega sú sem ég hef hlustað mest á síðustu mánuði. Ég hafði aðeins heyrt eitt gamalt lag með sveitinni áður en þegar platan fékk svona góða dóma þá pantaði ég hana um hæl og fékk hana nýpressaða í hendurnar nokkrum dögum síðar. Ég veit ekki við hverju ég bjóst en ekki þessu. Ég hef sagt það oft og ég mun segja það aftur að ég skil ekki hvernig er hægt að láta eymd og einmanaleika hljóma svona poppað og skemmtilega. Ef það er eitthvað sem ég ætla að sjá á Airwaves þetta árið þá er það þessi sveit.

Tags: , , , , , ,
Flokkað undir Kristín Gróa, Listar | Comments Off

Airwaves – fimmtudagskvöld

19.10.2007 - Kristín Gróa


Ég brunaði niður í bæ eftir vinnu í gær til að ná The Duke Spirit sem voru að spila off-venue í Popp. Þau voru í svaka stuði og þrusuðu út einum fimm lögum ef ég man rétt. Hápunkturinn var auðvitað að heyra uppáhaldið mitt, Love Is An Unfamiliar Name, en nýju lögin voru líka mjög góð. Gott rokk hér á ferð.

Eftir gott sushistopp lá leið okkar á NASA þar sem við sáum fyrstu hljómsveit kvöldins, hina bresku Slow Club. Fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þau er “spilagleði”. Þau höfðu greinilega alveg rosalega gaman af þessu og það smitaðist heldur betur út í salinn. Þetta voru skondinn gaur á gítar og sæt stelpa í kjól að berja á allt frá skeiðum yfir í stóla og það var bara alveg rosalega skemmtilegt að horfa á þau. Ég geri mér enga grein fyrir hvernig þau hljóma á upptöku en live virka þau allavega vel.

Næstir á svið voru gaurarnir með besta hljómsveitarnafn ever… Best Fwends. Þeir voru hressir, það verður ekkert af þeim skafið, en náðu ekki alveg að heilla áhorfendahópinn. Ég hafði nokkuð gaman að þeim og gæti alveg hugsað mér að tékka á plötunni en gelgjuteknóöskrin gengu reyndar misvel ofan í hópinn minn og einn ónefndur maður hristi bara hausinn ;)

Hin ofurhæpuðu Retro Stefson komu næst og voru svo mörg að þau rúmuðust varla á sviðinu. Ég var nokkuð spennt fyrir þeim en varð því miður fyrir talsverðum vonbrigðum. Kannski er það hæpið sem hafði magnað upp eftirvæntingar mínar en ég satt að segja veit ekki hvers vegna allt þetta fjargviðri er út af þeim. Mér finnst pælingarnar skemmtilegar en engan veginn nógu vel útfærðar og mér fannst þetta dálítið renna saman í einn graut. Þau áttu nokkra góða spretti en héldu ekki dampi þrátt fyrir fjöldann og m.a.s. smellurinn Medallion sem mér hefur fundist ágætur týndist hálfpartinn í grautnum. Ég býst þó við að reynsluleysi spili talsvert inni í hérna og hef fulla trú á að þessi sveit muni skila einhverju góðu frá sér í framtíðinni.

Við ákváðum að rölta yfir í Hafnarhúsið og stóðum í heila mínútu í röð sem verður að teljast ásættanlegt. Lay Low byrjaði fljótlega eftir að við gengum inn og er svo sem ekkert mikið um það að segja. Mér finnst hún fín en einhverra hluta vegna tengi ég ekki alveg við tónlistina. Það var hins vegar ansi huggulegt að standa og kjafta aftast í salnum á meðan hún spilaði svo ég komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri fullkomin bakgrunnstónlist. Ég veit það hljómar verr en ég meina það en mér finnst tónlistin hennar töff án þess að ég nenni að hlusta hlusta á hana. Meikar það sens?

Grizzly Bear stigu síðastir á svið í Hafnarhúsinu þetta kvöld og var ég greinilega ekki ein um að vera spennt fyrir þeim því það var orðið margt um manninn þegar þeir byrjuðu. Aftur verð ég því miður að segja að ég varð fyrir vonbrigðum en ég held ég skrifi það algjörlega á að ég var persónulega ekki stemmd fyrir þessi öfga rólegheit. Mér fannst lögin lengri og þunglamalegri en á plötunni ef frá er talið hið gullfallega Knife sem stóð upp úr. Þegar Krissa og Viggi voru bæði stungin af og ég næstum sofnuð standandi þá ákváðum við Svenni að hypja okkur bara heim þó settið væri ekki búið.

Við löbbuðum framhjá Lídó á leiðinni heim en þó það væri engin röð og The Duke Spirit væru við það að stíga á svið þá meikuðum við ekki meira heldur skakklöppuðumst heim í rúm. Það voru örugglega mistök en þar sem við sáum þau fyrr um daginn þá er ég ekkert of svekkt. Í kvöld á mér örugglega ekkert eftir að leiðast. Loney, Dear, múm og of Montreal í Hafnarhúsinu, Buck 65 og Jagúar í Iðnó, Heavy Trash í Lídó, Reykjavík!, Deerhoof og Jakobínarína á Gauknum… og svo auðvitað GusGus á NASA. Sá á kvölina sem á völina.

Tags: , , , , , , , , , , , , , , , , , ,
Flokkað undir Kristín Gróa, Óflokkað | Comments Off

Airwaves – miðvikudagskvöld

18.10.2007 - Kristín Gróa


Ég ætlaði nú varla að nenna að drattast út úr húsi í gærkvöldi til að fara á tónleika en ég lét mig nú samt hafa það að labba niður í bæ í kuldanum. Það var í raun ekkert sérstakt sem heillaði á dagskrá Airwaves þetta kvöld en ég var einna helst spennt fyrir að sjá ungpíurnar í Smoosh svo ég skundaði niður á Austurvöll og beint inn á NASA um hálftíuleytið. Mér létti óneitanlega þegar ég sá að það var engin röð og svo voru fyrstu menn sem ég sá þarna inni góðvinir mínir þeir Davíð og Heiðar svo kvöldið byrjaði allavega vel.

Smoosh stigu á svið fljótlega eftir að ég kom inn og byrjuðu af krafti fyrir framan fullan sal af fólki. Þær eru auðvitað alveg ótrúlega góðar miðað við aldur og ég skil ekki hvernig litla systirin getur haldið á bassanum, hvað þá spilað á hann. Ég veit svo sem ekki hvort ég myndi hlaupa út og kaupa diskinn en þær eru mjög hæfileikaríkar og gætu orðið að einhverju miklu stærra með tímanum. Hvaða rugl er það líka að túra með Deerhoof og Bloc Party þegar maður er 15?

Næstir á svið voru Soundspell og ég ákvað að gefa þeim séns þrátt fyrir að lýsingin á sveitinni í Airwaves bæklingnum innihéldi orðin “Fans of Brit-pop in the style of Keane should look out”. Eftir að hafa lesið þetta var ég eiginlega búin að ákveða að þeir væru leiðinlegir en ég reyndi að hrista það af mér og hlusta með opnum hug. Ókei þeir eru bara 17-18 ára og söngvarinn var nú þokkalega góður þrátt fyrir of mikið handapat. Hinsvegar held ég að þetta hafi verið lengsti hálftími lífs míns, fullur af innantómri dramatík og klisjukenndum textum. Ef ég ætti að súmmera bandið upp væri það einhverskonar blanda af Keane, Muse, Leaves og Coldplay. Kannski eru þeir að gera þetta vel en ég er bara með ofnæmi fyrir svona tónlist svo ég er ekki dómbær. Hljómborðsleikarinn fær líka megamínus fyrir að vera með eitthvað frekjuattítjúd við hljóðmanninn… dúddi kurteisi kostar ekkert og attitjúd frá 17 ára strák er bara kjánalegt.

Eftir þetta allt saman meikaði ég ekki meira enda Lights On The Highway næstir á svið og ég hef séð þá nógu oft á einni ævi held ég.

Hvað á svo að sjá í kvöld? Það sem kemur einna helst til greina eru Jenny Wilson, Lay Low og Grizzly Bear í Listasafninu, My Summer As A Salvation Soldier og Ólöf Arnalds í Iðnó, Sprengjuhöllin og The Duke Spirit í Lídó, Best Fwends, Retro Stefson og The Teenagers á NASA eða Kimono, Skátar og Khonnor á Organ. Það er úr nógu að velja ójá.

Smoosh
Soundspell á MySpace

Tags: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,
Flokkað undir Kristín Gróa, Óflokkað | 1 athugasemd »

Fylgstu með!

  • Facebook

Næstu listar

Topp 5 Gellur
Topp 5 Hunks
Topp 5 tónlistarmenn sem meikuðu það ekki sóló
Topp 5 Veikindi
Topp 5 sagan á bak við...
Topp 5 Virkar ekki á tónleikum
Topp 5 plötur sem munu fylgja mér alla tíð
Topp 5 Syngja ekki á eigin tungumáli
Topp 5 lög sem ég vil að verði spiluð í jarðarförinni minni
Topp 5 Milestones
Topp 5 Road Trip

Á döfinni

February  2015
Mon Tue Wed Thu Fri Sat Sun
   
  1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Disclaimer

We want to share the music we love with our readers in the hope that they will buy it and love it too.

All music posted to this site is available for a limited amount of time but if you are representing an artist and want a track removed please contact us at toppfimmafostudegi@gmail.com and we will remove it immediately.

Topp fimm hlustar á

Eldri færslur

Admin